miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Ný tónlist :)

Sjibbý kóla.

Ég var að fá fullt af nýrri tónlist frá Ásgeiri. Nýja platan með Smashing Pumpkins, Timbaland, nokkrar plötur með Nouvelle Vague og tvær plötur með Amy Winehouse. Hljómar allt mjög spennandi, þetta eru að vísu 7,3 klukkutímar af efni, næstum heill vinnudagur. Maður massar þetta á einu bressi ha??

Annars var þetta ágætis göngutúr þarna í morgun. Varð að vísu hundblaut en það er allt í lagi, það biðu mín bananasprengjur þegar ég kom heim :) Þegar ég var búin að taka hádegisblundinn þá var komin sól! Heppin ég ;)

Bið að heilsa í bili
Miðvikudagsmorgunn kl. 8. Gat ekki sofið lengur entil 7:15 vegna þess að ljótu ruslamennirnir komu til að ná í ruslið. Oh, hvað þetta fer í taugarnar á mér. Ég meina, að vera að vesenast í öskutunnunum fyrir klukkan 8 á morgnanna ætti auðvitað bara að vera bannað.
Svona fyrir utan svefnleysi af völdum sorps þá er mér illt í bakinu og ég er þreytt í öllum liðum og vöðvum. Það mætti halda að ég hefði tekið illilega á því í ræktinni í gær. En ég gerði það ekki. Fór ekki einu sinni í göngutúr. Í gær sat ég uppi í sófa og horfði á eitthvað misspennandi sjónvarpsefni.
Í dag er planið fara út í stóran göngutúr. Ég ætla meira að segja bara að fara í göngutúr núna fyrir klukkan 9 þrátt fyrir að það sé geðveik rigning úti núna. Ég fer bara í regnjakka og regnbuxum. Svo ætla ég að nota húfu og vettlinga í fyrsta skipti í sumar. Jamm, ég hef ekkert notað vettlinga eða húfur í allt sumar, veðrið hefur einfaldega bara verið of gott til þess.


Það er einhver með hiksta og neitar að koma út ;)

sunnudagur, ágúst 19, 2007

Sunnudagur

Húfan búin og ég verð að segja að þetta lítur út fyrir að vera ágætis húfa. Að sjálfsöðu tókst mér að klúðra smá með því að sauma auka kannt neðan á húfuna á aðeins vitlausan stað en það gerir ekki mikið til, gefur húfunni bara karakter. Núna er ég byrjuð á eldrauðum buxum. Var að spá í að búa til maríuhænumunstur en ég held að það sé ekki alveg my cup of tea þannig að núna er buxurnar bara með tveimur svörtum röndum í stað margra svartra doppa. Oh well.

Fór í barnaafmæli í dag og þar var nú fjör. Magnús Ingvar var 4. ára í gær. Til hamingju með það.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Föstudagsmorgunn kl. 10:13

Hvað er ég svo búin að gera í dag? Ég er búin að horfa á helming af einum þriðja af LOTR. Sem sagt einn disk af 6 í trílógíunni Hringadróttinssögu. Þetta tók mig aðeins 2 klukkutíma! Maður þarf sko greinilega að taka þetta í skömmtum. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem ég horfi á myndina, eða það er hluta myndarinnar. Í dag horfði ég á seinni hluta miðju myndarinnar í lengri útgáfu og ég var heila tvo klukkutíma að því, þetta tekur á, ég glápi bara og glápi og myndin heldur áfram og áfram. Mikið er samt gaman að horfa á myndirnar. Ég var rétt í þessu að enda við að horfa á bardagann í Helm's Deep. Magnað, alveg magnað. Veit samt ekki hvort að ég horfi á meiri LOTR í dag. Maður verður neflilega þreyttur á að sitja fyrir framan sjónvarpið án þess að líta af skjánum. Það er ekki einu sinni hægt að prjóna þegar maður er að horfa á LOTR, það er svo mikið að gerast.

Svo heldur skemmtidagskráin bara áfram í dag. Mig langar svo að prjóna eina húfu. Gafst upp á að prjóna hjálm vegna þess að ég er prjónafötluð. Ef einhver getur sagt mér hvað á að gera þegar maður prjónar 3 snúnar sléttar saman, þá má viðkomandi gefa sig fram. Ég er hætt að vinna og get því ekki fengið prjónahjálp í vinnunni. Ég verð því að reyna við eitthvað léttara með góðum leiðbeiningum.

Held ég fari að skella mér í að fitja upp nokkrar lykkjur ;)

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Dagurinn í dag.

Þá er hann loksins runninn upp, 15. ágúst. Hvað er eiginlega merkilegt við daginn í dag? Jú, í dag er von á grísling í heiminn. Ekki bara einhver gríslingur heldur minn gríslingur. Litla bebeið er nú samt ekkert á leiðinni í heiminn akkúrat í þessum töluðu orðum, ég er eiginlega komin á þá skoðun að ég megi bíða í fullar 2 vikur eftir að fá barnið í hendurnar. En það er svo sem allt í lagi því að ég er ekkert farin að bíða og ég er ekkert farin að vera mjög þreytt.

Núna er hafin dagskrá sem heitir Skemmtum Jónu. Á næstu dögum ætla ég ekki að gera neitt annað en að glápa á sjónvarpið, lesa bækur og hafa það notalegt. Svona eins og sumir myndu segja þá ætla ég að nýta síðasta tækifærið áður en barnið kemur í heiminn til að gera sitthvað skemmtilegt.

Ég læt vita þegar gríslingurinn er kominn í heiminn, ekki hafa áhyggjur. Lofa samt ekki að vera dugleg að skrifa inn á þessa síðu.

Túdlídú