föstudagur, júlí 18, 2003

Hvers vegna kreista sumir tannkremstúpurnar að framan en ekki aftan frá eins og eðlilegt er?

Því miður er það nú svo að fólk viðhefur ýmiss konar óeðli. Ritstjórn Vísindavefsins hefur til dæmis spurnir af fólki sem fer öfugu megin fram úr rúminu, klæðir sig í hægri sokkinn á undan þeim vinstri, hengir klósettrúllurnar upp þannig að endinn á pappírnum snúi inn og þrjóskast við að skrifa nafnið Anna aftur á bak. Svona hegðun ætti auðvitað alls ekki að viðgangast og er hræðilegt til þess að hugsa að fólk sé jafnvel að hafa svona lagað fyrir börnum og öðrum viðkvæmum og áhrifagjörnum sálum.

Ástæður þess að fólk kreistir tannkremstúpur að framan geta verið nokkrar. Hugsanlega er viðkomandi uppsigað við aðra á heimili sínu og gerir þetta til að angra þá. Annar möguleiki er að viðkomandi sé að lýsa frati á hefðir og venjur í samfélaginu. Á vísindamáli er það kallað andfélagsleg hegðun. Andfélagslega hegðun ber alltaf að reyna að hindra enda afar mikilvægt að allir geri hlutina eins.

Meðal annarra mögulegra ástæðna má svo nefna sálræna galla úr fyrra lífi, sýkingu í litlutá (við henni skal leita læknishjálpar) og almennt óeðli. Auk þess hefur verið bent á þann möguleika að viðkomandi geti verið á mála hjá tannkremsframleiðendum þar sem ljóst er að tannkremið nýtist síður sé túpan að jafnaði kreist að framan, einkum þó ef aðferðinni er fylgt út í hörgul með því að skilja eftir tannkremið aftast í túpunni.

Þeim sem búa með óeðlilegum einstaklingum eins og lýst er hér á undan hefur stundum verið ráðlagt að hafa eigin tannkremstúpu sem þeir geta kreist eftir sínu höfði (já) til að forðast árekstra á heimilinu. Þetta ráð má kannski notast við í neyð en það hlýtur þó að flokkast undir uppgjöf. Ritstjórn Vísindavefsins skorar á lesendur að beita sér fyrir því að sú stórskaðlega hegðun að kreista tannkremstúpur að framan verði gerð refsiverð með hæfilegum og vel völdum viðurlögum.

Svo gæti náttúrlega líka komið til greina að gera þá kröfu til tannkremsframleiðenda, sem eru raunar ekki margir, að þeir framleiði eingöngu túpur sem er ekki hægt að kreista að framan. Til dæmis mætti hugsa sér nú á dögum að maður sem reyndi slíkt fengi rafstuð, ekki ósvipað því ef hann reyndi að kreista af öllu afli vænan hrökkál.

Að lokum viljum við nefna að okkur er ekki kunnugt um hvort rannsóknir hafi verið gerðar á þessu frá sjónarmiði tannlækninga. Slíkar rannsóknir eru reyndar vandasamar til dæmis vegna þess að óeðlishópurinn kann að vera miklu klaufskari við tannburstun en hinn. Ef rannsóknir sýndu marktækan mun á tannheilsu gæti það því verið orsökin.


Tekið af Vísindavef Háskóla Íslands

Engin ummæli: